mánudagur, mars 29, 2004

Jájá, svona er ég stundum. Blogga bara ekkert í marga daga í senn. En núna skrifa ég. Ég ætlaði að segja ykkur eitthvað sérdeilis smellið en varð skyndilega svo pirruð að mig langar ekkert til þess. ...þessi pirringur er fylgifiskur nammiveikinnar sem ég sagði ykkur frá um daginn, hún hefur enn á ný náð heljartaki á mér. Ég sveiflast á milli þess að vera fullorðin og yfirveguð og þess að langa til að leggjast í gólfið og sparka og öskra og grenja geðveikt hátt. Yfirleitt næ ég að hafa stjórn á mér en þó ekki meiri en svo að ég hreyti einhverjum ósköpum í þann sem er svo óheppinn að vera að tala við mig akkúrat þá stundina.
Annars varð ég fyrir merkilegri vitrun í dag. Þannig var nefninlega að Inga vinnuveitandi ákvað að vera sniðug og kom með blað handa mér að lesa. Sniðugheitin fólust í því að þetta var hallærislegasta blað í heiminum, hét "Landnámshænan" og er tölublað Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna á Íslandi. Þetta þótti okkur fyndið. En í leiðindum mínum í vinnunni (sló dei) las ég allt blaðið spjaldanna á milli og sumar greinarnar tvisvar og núna á ég enga þrá heitari en að hafa nokkrar litríkar og vörpulegar landnámshænur í bakgarðinum.
Svo er annað stórkostlegt í vændum. Ég og Gústi erum að fara til Bandaríkjanna eftir 4 daga. Ég ætla sko að eyða 120.000 kalli í föt og snyrtivörur, skoða söfn, fara á tónleika, sötra bjór á kvöldin og spjalla feikimikið við elsku systur mína Jóhönnu. Ó það verður svo gaman. Nema okkur verði rænt af hryðjuverkamönnum en ég hefi ekki svo miklar áhyggjur af því.
Enn eitt sem heimurinn má glaður vita; ég er eiginlega búin að ákveða að vera hérna á Akureyri næsta vetur, við Gústi ætlum að leigja íbúðina hennar Þórhöllu systur hans og það verður bara geeðveikt. Alveg sama þótt þetta ár hérna í skólanum gagnist mér ekkert á félagsráðgjafarferli mínum (það kemur í ljós). Ég er ekkert að flýta mér.
Pöace.


fimmtudagur, mars 11, 2004

The wörk end æ
Svo ég tali nú aðeins um vinnuna mína því ég er hvort eð er í þeim gírnum að gera ekkert annað þá er þetta alveg ágætis vinna sko. Það er svona lítið að gera og nógur tími til að lesa og klóra sér í pungnum (ef maður er með pung). Það eina sem er að henni eru hel.... kúnnarnir sem hika ekki við að trufla mann í miðjum samræðum við Guð eða hvað það er sem maður er að gera hverju sinni. Þeir hika ekki við það. Sumir kúnnar eru þó betri en aðrir kúnnar. Og mér hefur meira að segja tekist að vingast við nokkra þeirra, ekki þó af eigin frumkvæði því eins og fram hefur komið er mér meinilla við fólk. Sumir þeirra hafa þó vakið athygli mína eins og t.d. fulla konan sem talar greinilega íslensku en með svo dönskum hreim að það hljómar eins og fínasta danska. Hún segir líka alltaf þegar hún kemur, jég er densk, þannig að það á ekki að fara neitt á milli mála að hún er að þykjast vera dönsk. Ég er ekki frá því að sú kona hafi elt mig frá Reykjavík því hún kom oft til mín í HP hérna í gamla daga. Önnur kona er öllu sérstakari, henni hefur tekist það ótrúlega að vingast við mig og mér líkar ágætlega við hana. Hún býr í blokkinni minni en ég kynntist henni fyrst sem kúnna. Hún talar með mjög áberandi Amerískum hrúeim eins og hún hafi búið í Bandaríkjunum í 40 ár áður en hún kom til Íslands en ég hefi samt fyrir því áreiðanlegar heimildir að hún er snaríslensk og hefur aldrei á ævi sinni búið í Bandaríkjunum. Svo er það Yapi, vinur minn frá Fílabeinsströndinni. Honum tókst líka það ótrúlega, að vingast við mig. Hann er magnaður maður og skemmtilegur og við höldum sambandi þótt hann sé reyndar hættur að versla við mig og fluttur í skólpræsið Reykjavík. Tveimur kúnnum tókst að vinna hjarta mitt, litterallí. Þeir eru tveir þrettán ára strákar, geðveikt svona hressir og skemmtilegir. Þeir komu til mín á Öskudaginn og sungu fyrir mig Æ VOS MEID FOR LOVING JÚ BEIBÍ á meðan ég roðnaði og blánaði og fannst ég vera orðin þrettán á ný. Það var bara þónokkuð gaman. Ég var búin að gleyma því hvað það var gaman að vera skotin í einhverjum, en ég er svo sannarlega skotin í þeim.
Einn af kúnnunum sem hafa vakið athygli mína var samt örugglega ekki kúnni heldur geimvera. Eða vélmenni. Hann var svona (já Magga, þetta er satt sem ég er að segja hérna) 2 og 80 á hæð og kolbikasvartur sem er ekki svo merkilegt út af fyrir sig, en hann talaði svona tveimur áttundum neðar en venjulegur djúpradda karlmaður gerir. Ég sver ég er að segja satt!! Og ég er ekki að ýkja!! Ég hef ekki heyrt neitt jafn merkilegt í mínu lífi. Ó já kæra fólk, ég hef séð ýmislegt skrýtið um ævina en þetta sló það allt út á einu bretti.
Nú farið þið kannski hjá ykkur og haldið að ég komi mér í klandur með því að tala um kúnna við ykkur sem eiga sér einskis ills von, en hvað vitið þið? Kannski er þetta allt bara skáldskapur... dúrúrúrúrúrúúmmmm (X-fæls thím)

mánudagur, mars 08, 2004

Í mér er uggur
Ég hefi hræðilegar áhyggjur. Ég var nefninlega á spjalli við minn kæra vin Albert typpaling í smá stund í dag og ég var svona geðveikt að tala þegar mér flaug allt í einu í hug hvort svipurinn á andlitinu á mér væri í samræmi við það sem ég væri að segja. Hvað ef maður er alltaf eins og fáviti á svipinn þegar maður er að segja eitthvað alvarlegt? Ég hugsaði bara Sjitt! Hvað ef ég er með geðveikan daðursvip á andlitinu alveg án þess að vita það! Og hvað ef maður er ekkert venjulegur á svipinn þegar maður er bara einn að dunda sér eins og maður heldur að maður sé!!?? Ég hef þónokkuð oft staðið sjálfa mig að því að vera skælbrosandi ein í búðinni. Og stundum geri ég svona "úff hvað þú ert leiðinlegur"-svip þegar fólk fer í taugarnar á mér alveg án þess að ætla mér það. Sjitt maður this is fríking mí át!!! Hvað með ykkur kæru vinir og ættingjar? Eruð þið eins venjuleg á svipinn og þið haldið að þið séuð?

sunnudagur, mars 07, 2004

Úrr..
Já ég veit alveg að það er þarna eitthvað links; gúgol njús, edit mí og edit mí búllsjitt þarna á hægri hönd en það er ekkert á mínum vegum og ég vil ekki hlusta á neitt helvítis kjaftæði um að það sé auðvelt að gera svona síður, það er bara ekkert auðvelt og hættiði að flissa þarna aftast!

Lekk off nolids
Af því að ég kann ekkert að gera svona linkasíðu þá verð ég bara að skrifa langar og leiðinlegar greinar um síður sem fólk ætti að leggja lag sitt við. Jónasína Fanney súperskutla er með bloggidíblogg: www.ekkibarasaet.blogspot.com Og það er enginn lygi, hún er sko ekki bara sæt, heldur gáfuð og skemmtileg og á lausu og með hjúds.. og fyndin og opin og loðin og félagslynd og dugleg og mjó og allt það besta sem ein manneskja getur boðið uppá!

Þetta skemmtilega...it vos a læ
Ég var ekki með neitt ákveðið í huga þegar ég skrifaði þetta þarna um daginn að ég hefði eitthvað skemmtilegt að segja. En það er ýmislegt skemmtilegt í lífinu sem ég get deilt með ykkur. Ég er t.d. búin að fitna á skemmtilegan hátt, komin með bumbu sem lafir yfir nærbuxurnar. Svo er ég búin að þróa með mér galdrahæfileika í vinnunni! Ég þarf ekki annað en að segja "út" upphátt til að fólk hreinlega hverfi úr búðinni minni.
Jónína systir mín hefur líka sjaldgæfa galdrahæfileika. Fyrir ekki svo löngu síðan þurfti hún ekki annað en að segja upphátt við mig "ég skal taka tímann" þá var ég rokin af stað til að ná í eitthvað fyrir hana. Þetta gekk vel hjá henni í 18 ár eða þangað til hún trúði mér fyrir því að hún VÆRI EKKERT AÐ TAKA TÍMANN!!! Þá fannst mér nóg um enda stóð ég í þeirri trú að ég hefði bætt metið í hver einasta skiptið og væri nálægt því að vera heimsmeistari í því að sækja eitthvað fyrir einhvern. Mikil vonbrigði. En þetta kenndi mér þó að taka ekki mark á neinu sem hún segir. Þessvegna ansa ég því ekki einu sinni þegar hún segir "ef þú segir mér þetta skemmtilega, þá skal ég segja þér svolítið skemmtilegt". Ef ég hef reiknað dæmið rétt þá mun hún ekki taka tímann og ljúga því að mér að ég hafi bætt metið einu sinni enn.

miðvikudagur, mars 03, 2004

Æ dónt hev a penis!
Ég hlýt að vera kelekkuð! Gleymi að segja ykkur frá Herra Penis! Jahá, haldiði ekki að Herra Penis sé kominn í ruglið www.folk.is/mr.hasnopenis

BlakkÁt
Ég veit svo sannarlega ekki hvað á daga mína hefur drifið undanfarið. Ég er búin að vera í blakkáti lífs míns. Þannig er því nefninlega farið að þegar maður gerir það sama alla daga þá hættir maður smám saman að muna nokkurn skapaðan hlöt.
Kannski ég segi ykkur þetta skemmtilega sem ég ætlaði að segja ykkur um daginn en gerði svo ekki. Nei annars, ég er ekki í stuðinu.
Ég er ekki í stuðinu með guðinu.
Eitt brennur á mér þó. Mér finnst ég þurfi að deila því með mannkyninu; Jesús Lovs you gæs. Even thó you're just a bööns of sökkers.

mánudagur, mars 01, 2004

Nammiveikin
Ég er þungt haldin af nammiveiki. Ég komst að því hversu djúpt ég er sokkin þegar ég grét af gleði yfir því að finna súkkulaðirúsínu í sófanum. Við erum að tala um rúsínu sem hafði greinilega ekki átt sjö dagana sæla. Ég borðaði hana samt, af bestu lyst, og þakkaði almættinu fyrir þessa óvæntu gleði. Svona er nammiveikin, kríps op on jú from bíhænd.
Reynzi félagi er kominn í bloggið; www.reyniralbert.blogspot.com, tékkitt!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?