fimmtudagur, október 21, 2004

iss oll abát sörvævin, jo'oll!
Ég er að fara í próf á morgun. Ég vaknaði snemma í morgun og lærði og lærði þangað til ég tók mér pásu klukkan 4. Þá fórum ég, pabbi og Soffía á listasafnið að sjá Boyle fjölskyldu sýninguna, hún var kúl. Og svo fór ég heim og tók einn Tæ-Bó tíma með Ágústu Johnson, það var rosalegt fjör og ég var rosa mjó eftir það. Eftir tæbó tók við svolítið vandamál; ég þurfti náttúrulega að fara í sturtu en var að passa Andreu sætu pæju, en svo leysti ég vandamálið bara eins og fyrirtaks mamma og tók hana bara með mér í sturtu! Fyrirtaks mamma ég er! Hún var glöð, ég var glöð, allir voru glaðir.
Eftir pásuna datt botninn alveg úr læreríinu. Ég fékk allt í einu geysilegan áhuga á því hvernig mamma steikir fisk og þurfti að fylgjast með því. Svo þurfti ég að borða fiskinn. Svo þurfti ég að taka af borðinu og svo þurfti ég ekkert meir. Þá spilaði líkaminn út einu af Sörvæval-tekník spilunum sínum og lét mig hætta að hugsa. Eftir það gerðist lítið. Ég poppaði, horfði á According to Jim (þættir sem litli feministinn ég hata), Malcom in the middle (ég elska nú Malcom, hver gerir það ekki), Everybody loves Raymond (by then I was unable to move or speak because of all the popcorn I had eaten, so I just sat there..), King of Queens og Will og Grace og ef pabbi hefði ekki stormað inn í blautri skyrtu með skrúflykil í annarri þá er engin leið að vita hvar þetta hefði endað. En hann gerði það, blessaður faðir minn, stormaði inní stofu og sagði mér frá enn einni hetjudáðinni sem hann hafði drýgt fyrir kellingarnar í blokkinni. Ég þurfti ekki að vita meir, heilinn á mér hrökk í gang og ég fékk vott af samviskubiti yfir því að vera ekki að læra... en svo hugsaði ég: "what the hekk, ég læri bara í fyrramálið!"

mánudagur, október 18, 2004

Gúd, gúd, gúd; gúd væbreisjons
Jæja gott fólk. Nú ætla ég að vera jákvæð í svolítinn tíma. Ég er búin að vera svo neikvæð og fúl undanfarið að það gengur ekki lengur, ég er komin með leið á því. Allavega.. það er margt jákvætt í lífinu. T.d. á ég skemmtilegan kærasta sem kom í heimsókn síðustu nótt, blindfullur og röflandi. Þetta með röflið er ekkert grín, hann talaði stanslaust í tvo klukkutíma, eða þangað til hann sofnaði í miðri setningu. Mér fannst það gaman, enda er það ekki oft sem hann hellir sig fullan blessaður drengurinn.
Ég var full á föstudagskvöldið og það var líka gaman enda var í ég félagsskap stelpna sem ég fíla í botn og tætlur! Ég fór einmitt til Gústa niður í Ketilhús/Ketilshús, þar sem hann var eitthvað að vinna, eftir að hafa dansað eins og drottning á Dátanum og Kaffi Akureyri. Ég röflaði reyndar ekkert eins og hann heldur lét ég fara vel um mig á einhverjum bedda og svaf til klukkan sex um morguninn. Þá fannst Gústa loksins vera kominn tími til að fara heim og fyrir einhverja Guðs mildi mundi hann eftir því að taka mig með.
Og meira skemmtilegt.. Jú! Ég var boðin í mat og súfflei til bestu vina minna hjónanna í dag. Af því að þau eru svo hip og kúl þá ákváðu þau að elda kvöldmatinn klukkan 3 í dag svo að við þyrftum ekki að bíða eins lengi eftir eftirréttinum sem var einmitt Súfflei-ið góða sem Magga kann að gera. Þess má geta að ég er búin að vera að suða um svona súfflei í margar margar vikur og er þess vegna afar glöð að hafa fengið það loksins. Það var sko gaman!
Svo er búið að vera yndislegt veður í allan dag. Akkúrat veðrið til að koma manni í fílíng. Fílíng fyrir hvað, spyrjið þið ykkur kannski, en þá segi ég bara: "Fílíng fyrir hvað sem er!" Slydda og rok, ekta íslenskt suddaveður, skapað til að koma manni í fílíng.
Enda er ég búin að vera í fílíng í allan dag. Endalausum fílíng. Það er líka gaman.
Ég get glaðst yfir því að vera búin með verkefnið sem við hópurinn eigum að skila á morgun. Ég get glaðst yfir því að hafa tekið fullt af kreisí sjálfsmyndum í dag. Sem minnir mig á það að ég ætlaði alltaf að láta Gústa kenna mér að búa til myndasíðu. Ég get hlakkað til þess dags sem ég man eftir því að láta hann kenna mér það í alvörunni! Jahá, lífið er sko fullt af gleði og góðum fílíng.

miðvikudagur, október 06, 2004

Það er eyrnamergur í hárinu á mér
Það er líklega einnig svo
hjá þér
Nema minn er þunnur
og meira svona eins og safi
en þinn er gulur og þykkur
Júgóslavi


Krakkar, krakkar. Þetta er nú búin að vera ógeðslegri vika en ég hélt að hún yrði. Ég er s.s. búin að vera með andstyggilega kvefpest í tvær vikur núna sem tók smá útúrdúr og þróaðist útí eyrnabólgu síðasta laugardag. Síðan þá er ég búin að liggja, eða öllu heldur sitja, í rúminu, í hitamóki og, að því er virtist, endalausri vanlíðan. Aðfaranótt mánudags var verst. Þá hafði ég litla stjórn á hugsunum mínum og í einhverri ólukku missti ég mig útí Þjóðlag frá Slóvakíu við ljóð eftir Jenna Jóns sem er einhvernveginn svona:

Þannig áfram, áfram, áfram ævin líður
undur fljótt og tíminn aldrei bíður, bíður
svífa' í sæludraumi, svanni' og halur fríður
syngja' og dansa' og trall la la la laaa.

Eftir hvert skipti myndaðist smá þögn í huga mínum en svo var hann rokinn af stað í enn eina umferðina. Í einni þögninni heyrði ég í sjálfri mér æpa í örvæntingu: "Vilborg! Þú ert föst í einhverskonar hringrás!!" en áður en mér tókst að hafa hemil á huganum var hann kominn á bólakaf í vitleysuna aftur. Þannig leið nóttin við stanslausa gleði hugar míns sem söng og trallaði og dansaði skottís á meðan líkaminn þjáðist enn meira og gat ekki sofið vegna hávaða.
En nú hef ég fengið nóg! Ég er búin að liggja sveitt í sveittum nærbuxum undir sveittri sæng með sveittan kodda í 3 daga. Og nú hætti ég þessu ógeði, fer í sturtu og andskotast ekki upp í rúm fyrr en í fyrsta lagi klukkan 10 í kvöld!!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?