fimmtudagur, desember 29, 2005

Om smukke unge japaniske mennesker

Þá veit ég það. Til að fá fólk til að kommenta þarf ég að tala um pólitík.. en ég er ekki gefin fyrir slíkt, nema í afar litlum mæli, svo að hér kemur venjuleg lesning. Þeir sem vilja tjá sig við mig um feminisma mega gjarnan halda áfram að kommenta um málið þótt að ég haldi áfram að blogga um aðra hluti.

Nú er jólafrí. Þriggja vikna langt frí. Ég hafði því miður ekki rænu á því að skipuleggja það svo að í rauninni er ég ekki búin að gera neitt af viti. Allar góðar fyrirætlanir fjúka út í vindinn þegar ég gef mér ekki ákveðna stund, tíma og rými, til að sinna þeim. Allar góðar hugmyndir fæðast og deyja bara ef ég ákveð ekki hvenær ég ætla að framkæma þær. Skyldi þetta vera eins hjá öllum? Sumir eru reyndar framtakssamari en aðrir, taka sig til og gefa hugmyndunum tíma og rými í framtíðinni til að þær drepist ekki strax. En ég er föst akkúrat núna. Föst í nútímanum. Já, það er til eitthvað sem heitir að vera fastur í nútímanum. Það er að hafa ekki nógan áhuga á framtíðinni til að viljinn í nútímanum beinist að því að koma henni í verk. Þannig verða morgundagarnir að endalausum nútíma sem vill ekkert og vonar aldrei að neitt gerist. Háfleygt? Nei.. meira svona óskiljanlegt og tímaeyðsla að lesa. Svartagallsraus. Ég er með oggulítið samviskubit yfir að eyða tíma þess sem les í þessa vitleysu.. Samt er ég pínulítið kát. Kát því bara með því að skrifa þetta rugl um nútíð og framtíð, sem hljómar skelfing þunglyndislega, verð ég rífandi hress og hlakka til alls sem á eftir að gerast.
Guð minn góður, allt í einu mundi ég eftir mynd sem ég sá einu sinni. Hún var um japanska unglinga og líf þeirra þegar diskóæðið stóð sem hæst. Með leiðinlegri myndum sem ég hef séð.

sunnudagur, desember 25, 2005

Vertu sæll, Hamilton

Við þjáningarsystur í Kristi vorum Drottni settum þessa grein inná Herbertinn. Mig langaði samt að dreifa boðskap hennar sem víðast, svo lesið! Lesið eins og ykkar síðasti dagur sé upp runninn.

Forsætisráðherra óskaði Unni Birnu til hamingju með titilinn Miss World fyrir hönd þjóðarinnar (Man ekki til þess að hann hafi hringt í mig til að spyrja um mína skoðun.. en then again, kannski var ég full).

Það að feminstar skyldu mótmæla því að forsætisráðherra óskaði Unni Birnu til hamingju með titilinn „Ungfrú Heimur“ hefur ekkert að gera með persónuna Unni Birnu. Þeir sem hneykslast á því að feministar skyldu láta í sér heyra eru að hneykslast á því að þetta sé persónuleg móðgun við Unni Birnu. Til dæmis skrifaði Kvenréttindafélag Íslands í fjölmiðla þar sem þeir lýstu þeir yfir að þau væru stolt af Unni Birnu, hún væri fín fyrirmynd og stæði sig vel, væri jafnréttisinni og ég veit ekki hvað og helvítis hvað. Að feministar væru heldur betur að færa sig upp á skaftið með að geta ekki samglaðst henni Unni. Málið er að feminstar eru ekki að mótmæla henni sem persónu heldur titlinum sem hún ber. Konur ættu að vera á móti fegurðarsamkeppnum.

Þessar keppnir gera ekki neitt úr persónuleika, gáfum eða hæfileikum keppenda. Hvað er það að mynda gáfaða konu, lýsandi skoðunum sínum á jafnrétti og hvernig hana langar að breyta heiminum til hins betra, á bikiníi. Til hvers þarf hún að vera á bikiníi? Hver og ein einasta kona í þessari keppni var landi sínu til sóma. Falleg, gáfuð, hafði náð árangri á einhverju sviði. En af hverju þurfti að mynda hana á nærbuxunum? Gat hún ekki bara verið í gallabuxum og bol? Eða sést þá ekki nógu vel hversu gjafmild hún er, gáfuð og hvernig hún muni vera titlinum til sóma? Nei líklegast leynast þeir hæfileikar á milli brjóstanna eða innanverðu lærinu.

Feminstar voru með gjörð sinni að mótmæla fegurðarsamkeppnum, ekki persónunni Unni Birnu, sem er eflaust hin yndislegasta stúlka. Fegurðarsamkeppnir sökka bara svo helvíti mikið. Keppni þar sem að dæmt var um fegurð. Hvað er fegurð? Er fólkið sem er í dómnefnd í svona keppnum með próf í alþjóðlegum fegurðarfræðum?

Það er fólk á Íslandi sem er að keppa í ýmsu öðru en fegurðarsamkeppnum. Til dæmis skákkeppnum eða botsja. Ekki höfum við heyrt forsætisráðherra óska þeim til hamingju fyrir hönd þjóðarinnar. Á ekki eitt yfir alla að ganga?

Sumir gætu sagt að það sé órökrétt hjá okkur að líkja þessu saman þar sem að það felist svo mikil auglýsing fyrir þjóðina í þessum titli. En hver man hver Miss World var seinasta ár? Og hversu miklu nær eruð þið um þjóð þeirrar manneskju?

Svo var líka einn góður punktur sem við lásum einhversstaðar: Ef forsætisráðherra myndi óska Liverpool til hamingju með heimsmeistaratitilinn í nafni þjóðarinnar, yrðu eflaust margir ósáttir því að það halda ekki allir með Liverpool.

Okkur er svosem skítsama því að við fylgjumst ekki með knattspyrnu. Alveg eins og þið sem “fylgist” ekki með feminisma. En þeir sem láta sig knattspyrnu einhverju varða myndu vilja hafa eitthvað um málið að segja. Að sama skapi eru flestir feministar á móti fegurðarsamkeppnum þar sem þær gera út á staðlaða fegurðarímynd fólks umfram aðra kosti sem það kann að hafa. Eru það ekki réttindi þeirra sem ekki “halda með” fegurðarsamkeppnum að fá að mótmæla því að þeirra nafn sé skrifað undir heillaóskir til þess sem þeir eru að mótmæla?Vilborg og Magga

Jólin láta ekki bíða eftir sér, en áramótunum hefur verið seinkað um sekúndu

Nú eru jólin komin eina ferðina enn. Mikið er það ágætt. Ég er stödd á heimili foreldra minna á Akureyri. Ég var búin að hlakka þessi ósköp til að komast heim í jólafrí til að slaka á og búa mig undir æsilega næstu önn. En því miður hafa draugar, ásamt Jónínu systur minni, sest að í gamla herberginu mínu svo ég get ekki sofið þar heldur verð að kúldrast inni í stofu.. í sófanum.. sem er ekkert spes. Annað sem veldur mér áhyggjum og kvíða og er síst til þess fallið að ég slaki á er að hér morar allt í pínulitlum flugum sem enginn sér nema ég. Ég er búin að sitja með bakið í vegg og húfu á hausnum og veifa frá mér ósýnilegurm flugum síðan ég kom. Mamma lítur af og til á mig og klappar og kinkar kolli í viðurkenningarskyni, ég held að hún haldi að þetta sé einhver gjörningur hjá mér, enda trúir hún ekki á ósýnilegar flugur og hefur aldrei gert. Auk þess sem að hún túlkar allt sem ég geri sem list eftir að ég byrjaði í Listaháskólanum.
Það fór annars eins og mig grunaði eftir síðasta blogg. Ritgerðin sem ég hafði skrifað um nóttina var ó....... Í íslensku er "ó" yfirleitt neikvætt forskeyti á lýsingarorðum. Þó eru til orð sem eru neikvæð í eiginlegri merkingu en geta haft jákvæða merkingu í framburði, eins og "ótrúleg" og "óstjórnlega". Hvort túlka megi þessi orð sem jákvæð eða neikvæð ræðst þó yfirleitt á því sem á eftir þeim kemur.
Annars er þetta ljúft og gott líf.
Gleðileg jól allir mínir vinir og fjandmenn! Gleðileg jól!

þriðjudagur, desember 13, 2005

Leffíng viþ Jesös

Ég var búin að segjast ætla vaka í alla nótt og klára ritgerðina sem ég á að skila á morgun. Mér skilst að annað hvort hafi ég frest til klukkan fjögur eða til miðnættis. Skiptir ekki máli þannig séð, ritgerðin er nánast tilbúin svo frestur til fjögur á morgun dugar fínt. Vegna þess hversu vel mér miðar ætla ég að beila á loforði mínu til sjálfrar mín um að vaka alla nóttina til að geta klárað ritgerðina fyrir átta í fyrramálið og skila henni þá. Ég er orðin óhemju þreytt. Mér finnst allt sem ég skrifa vera brjálæðislega fyndið sem er öruggt merki um greindarskort vegna svefnleysis. Þess má geta að umfjöllunarefni ritgerðarinnar er munurinn á messum (í kirkjum, já) og leiksýningum. Ekkert leiðinlegt í sjálfu sér, en alveg örugglega ekki fyndið.

föstudagur, desember 09, 2005

The best reason to own a mouth!

Jibbí. Þá er ég komin í JÓLAFRÍ! Á reyndar eftir að skrifa tvær ritgerðir og mæta í eitt próf, en það er ekkert. Reyndar held ég að ég eigi eftir að sakna samnemenda minna og kennara svolítið. Ég er farin að venjast hressleika þeirra. En ég hitti þau fljótt aftur. Auk þess sem ég fæ tækifæri til að vera með yndislegustu fjölskyldu í heimi (minni) um jólin!
Í morgun frumsýndum við verkið okkar NOMAYO í skólanum. Það vakti lukku. Þetta var voða skemmtilegt. Voða listó allt saman. Fimm manneskjur í herbergi sem klætt hafði verið að innan með svörtum ruslapokum, dans og söngur og mikið majones. Tekið skal fram að það var ég sem útvegaði 20 lítra af ókeypis majonesi, enda hef ég víðtæk sambönd í majonesheiminum. Ég er búin að læra ýmislegt í vikunni:
- það er auðvelt að útvega majones
- ég er sjarmerandi þegar ég er útötuð í majonesi
- það er gott að baða sig upp úr majonesi
- majones er fallegt
- majones er gott fyrir húðina
Svo segir fólk að maður læri ekki neitt í leiklistarskóla.. Í rannsóknarvinnu fyrir verkefnið fundum við meðal annars þessa heimasíðu: http://world-of-mayo.com/ Hún ætti að fá einhverskonar verðlaun.

þriðjudagur, desember 06, 2005

Taka pjásu?

Hahaha. Nú er kátt á hjalla hjá okkur lesbíunum á Vesturgötunni. Við sitjum hérna tvær við eldhúsborðið, löngu búnar að gefast upp á lærdómi og stressi og bjór kominn í spilið. Fyndið hvað allt sem maður gerir í próftíð verður þrungið tilgangi og merkingu. Mér finnst t.d. alltaf brennandi nauðsynlegt að þrífa íbúðina hátt og lágt þegar mikið álag er í skólanum. Svo geri ég lista yfir allt sem ég þarf að gera áður en ég dey, fer í löng heit böð, fæ mér bjór (N.B. án þess að detta almennilega í það, sérstakt..), tek kaupæði í Kringlunni, skoða ALLT á internetinu sem ég hef ENGANN áhuga á, leik mér í snjónum, legg metnað minn í allt sem ég kasta til hendinni við annars; eins og að búa til heimsins bestu samloku! Hella upp á heimsins besta kaffi! Brjóta handklæðin saman eins og mamma gerir það!
Hei, verð að kötta þetta sjort, Fanney fann eitthvað fyndið á dýraland.is...

föstudagur, desember 02, 2005

Penis enlargement

Þá er kominn föstudagur! Sumir kalla föstudaga "flöskudaga", en það eru bara fyllibyttur. Verð þó að játa að ég myndi gjarnan vilja hafa eins og eina vodkaflösku innan seilingar, ef mér skyldi fara að leiðast.. Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki þá eru það illa skipulagðar helgar. Illa skipulagður frítími endar alltaf með öðru hvoru: fylleríi eða endalausum helvítis leiðindum. Nú kynnu sumir að halda að ég kunni bara ekki að slaka á en það er misskilningur. Ég slaka stundum veeeel á, sérstaklega þegar ég á að vera að læra.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?