sunnudagur, desember 25, 2005

Vertu sæll, Hamilton

Við þjáningarsystur í Kristi vorum Drottni settum þessa grein inná Herbertinn. Mig langaði samt að dreifa boðskap hennar sem víðast, svo lesið! Lesið eins og ykkar síðasti dagur sé upp runninn.

Forsætisráðherra óskaði Unni Birnu til hamingju með titilinn Miss World fyrir hönd þjóðarinnar (Man ekki til þess að hann hafi hringt í mig til að spyrja um mína skoðun.. en then again, kannski var ég full).

Það að feminstar skyldu mótmæla því að forsætisráðherra óskaði Unni Birnu til hamingju með titilinn „Ungfrú Heimur“ hefur ekkert að gera með persónuna Unni Birnu. Þeir sem hneykslast á því að feministar skyldu láta í sér heyra eru að hneykslast á því að þetta sé persónuleg móðgun við Unni Birnu. Til dæmis skrifaði Kvenréttindafélag Íslands í fjölmiðla þar sem þeir lýstu þeir yfir að þau væru stolt af Unni Birnu, hún væri fín fyrirmynd og stæði sig vel, væri jafnréttisinni og ég veit ekki hvað og helvítis hvað. Að feministar væru heldur betur að færa sig upp á skaftið með að geta ekki samglaðst henni Unni. Málið er að feminstar eru ekki að mótmæla henni sem persónu heldur titlinum sem hún ber. Konur ættu að vera á móti fegurðarsamkeppnum.

Þessar keppnir gera ekki neitt úr persónuleika, gáfum eða hæfileikum keppenda. Hvað er það að mynda gáfaða konu, lýsandi skoðunum sínum á jafnrétti og hvernig hana langar að breyta heiminum til hins betra, á bikiníi. Til hvers þarf hún að vera á bikiníi? Hver og ein einasta kona í þessari keppni var landi sínu til sóma. Falleg, gáfuð, hafði náð árangri á einhverju sviði. En af hverju þurfti að mynda hana á nærbuxunum? Gat hún ekki bara verið í gallabuxum og bol? Eða sést þá ekki nógu vel hversu gjafmild hún er, gáfuð og hvernig hún muni vera titlinum til sóma? Nei líklegast leynast þeir hæfileikar á milli brjóstanna eða innanverðu lærinu.

Feminstar voru með gjörð sinni að mótmæla fegurðarsamkeppnum, ekki persónunni Unni Birnu, sem er eflaust hin yndislegasta stúlka. Fegurðarsamkeppnir sökka bara svo helvíti mikið. Keppni þar sem að dæmt var um fegurð. Hvað er fegurð? Er fólkið sem er í dómnefnd í svona keppnum með próf í alþjóðlegum fegurðarfræðum?

Það er fólk á Íslandi sem er að keppa í ýmsu öðru en fegurðarsamkeppnum. Til dæmis skákkeppnum eða botsja. Ekki höfum við heyrt forsætisráðherra óska þeim til hamingju fyrir hönd þjóðarinnar. Á ekki eitt yfir alla að ganga?

Sumir gætu sagt að það sé órökrétt hjá okkur að líkja þessu saman þar sem að það felist svo mikil auglýsing fyrir þjóðina í þessum titli. En hver man hver Miss World var seinasta ár? Og hversu miklu nær eruð þið um þjóð þeirrar manneskju?

Svo var líka einn góður punktur sem við lásum einhversstaðar: Ef forsætisráðherra myndi óska Liverpool til hamingju með heimsmeistaratitilinn í nafni þjóðarinnar, yrðu eflaust margir ósáttir því að það halda ekki allir með Liverpool.

Okkur er svosem skítsama því að við fylgjumst ekki með knattspyrnu. Alveg eins og þið sem “fylgist” ekki með feminisma. En þeir sem láta sig knattspyrnu einhverju varða myndu vilja hafa eitthvað um málið að segja. Að sama skapi eru flestir feministar á móti fegurðarsamkeppnum þar sem þær gera út á staðlaða fegurðarímynd fólks umfram aðra kosti sem það kann að hafa. Eru það ekki réttindi þeirra sem ekki “halda með” fegurðarsamkeppnum að fá að mótmæla því að þeirra nafn sé skrifað undir heillaóskir til þess sem þeir eru að mótmæla?



Vilborg og Magga

Öfugmæli...
Sælar, systur minar í Kristi. Þakka ykkur fyrir góðan pistil en ég verð að fð að leggja orð í belg.

Það er náttúrulega alveg lýsandi fyrir feminista að óska kynsystur sinni til hamingju með góðan árangur en þó í grein sem fellur þeim ekki í kramið. Þetta er auðvitað pólitísk rétthugsun í sínu hæsta veldi en hún skilar sjaldnast nokkru! Seint mun ég nefnilega líta feminista jafnréttissinna, en það er önnur saga.

Svo ég leyfi mér að vitna í skrif ykkar þá segið þið fullum hálsi „Konur ættu að vera á móti fegurðarsamkeppnum“ en ég vil tka fram að nú eru erfiðir tímar. Nefnilega bæði tímar jafnréttis og frjálshyggju. Frjálshyggjan segir okkur að við megum - svo til - gera hvað sem okkur sýnist en jafnréttishugsunin segir okkur að við verðum að gæta að því að mismuna ekki fólki eftir kyni og er þetta því að vissum hluta stefna pólitískrar rétthugsunar.

Feminískt jafnrétti í starfi gengur t.d. útá vissa mismunun ekki eftir hæfileikum eða getu, heldur eftir hvaða litningum mömmu manns og pabba tókst að sulla saman í fyrndinni. Fullkomið jafnrétti ætti því ekki að vera kynbundið, heldur eingöngu miðast við hæfileika og getu. Það þýðir að konur eigi að geta verið í meirihluta starfsfólks eins fyrirtækis rétt eins og karlar. Ég ætla nú ekki að fullyrða að hlutfallið milli kynja í dag sé til marks um þetta jafnrétti sem ég hef nefnt.

Jafnrétti í skoðunum er þá líka þvert á feminískt jafnrétti kynjanna og sem dæmi eru fylgjendur feminísks jafnréttis almennt ekki fylgjandi s.s. fegurðarsamkeppnum, nektardansstöðum, kynbundnum hlutverkum o.s.frv. Sömuleiðis eru litnar hornauga konur sem eru fylgjandi þessu sama. Skoðanafrelsi er ekki í hávegum haft í greinum feminísks jafnréttis og þannig má benda á forræðishyggjuna í þessum orðum ykkar.

Ég vil frekar að fólk geri bara nákveæmlega það sem það vill svo lengi sem það beinlínis skaðar ekki aðra. Þar af leiðandi finnst mér ekkert að konur eigi að vera á móti fegurðarsamkeppnum, en sjálfum mér þykir þær ósköp leiðinlegar. Auk þess fylgist aldrei neinn með þeim.

En ég nenni ekki að kommenta meira. Gleðileg jólin :D
 
Takk fyrir kommentið bróðir:) Það gleður mitt litla hjarta ósegjanlega mikið að þú skulir gefa þér tíma til að lesa mig. Leyfist mér að kommenta á komment yðar..

Feminískt jafnrétti í starfi segir þú að gangi út á vissa mismunun. Þar ertu eflaust að vísa til kynjakvóta (sem n.b. hefur hjálpað til við að tryggja að raddir kvenna heyrist ekki síður en raddir karla, Og Öfugt) og hina svokölluðu "jákvæðu mismunun" sem gengur út á að séu karl og kona jafn hæf til starfs skuli velja konuna fram yfir karlinn.

Hérna er um að ræða verkfæri sem hafa gert konum það kleift að láta til sín taka á vettvöngum (vettvangi/vöngum/westwing..) sem þær hafa áður ekki haft aðgang að vegna kynferðis síns. Á meðan þessi verkfæri (sem vel að merkja eru sýnileg, með augljósan tilgang, ekkert leynimakk á ferðinni) voru ekki til staðar, viðgekkst enn meiri mismunun konum í óhag. Þeim hefur einfaldlega ekki verið veittur aðgangur að hinum ýmsu stöðum í gegnum tíðina, annað hvort án útskýringa eða hreint út á grundvelli kynferðis, sem er að mínu mati mun óheiðarlegra en sú "mismunun" sem konur standa fyrir núna með tilraunum sínum til að gera veg kvenna í valdastöðum meiri en hann hefur verið.

Það má deila um hvort kynjakvóti sé nauðsynlegur. Að mínu mati er hann það. Konur og karlar hafa oft mismunandi sjónamið og á meðan enn ríkir ekki jafnrétti í heiminum er reynsluheimur þeirra svo ólíkur að mér finnst nauðsynlegt að raddir beggja fái að heyrast jafnt. Um jákvæða mismunun má líka deila. En málið er að án þessarra verkfæra hingað til, er ég viss um að árangurinn í jafnréttisbaráttunni væri enn lakari en raun ber vitni.

Þú gerir greinarmun á fullkomnu jafnrétti og feminísku jafnrétti. En hvað er feminismi/kvenréttindabarátta annað en jafnréttisbarátta?

Margir virðast halda að feministar berjist fyrir réttindum kvenna fram yfir karla og vísa þá gjarnan í verkfærin sem notuð hafa verið til að koma konum áfram og upp á stallinn sem karlar hafa staðið á einir í aldaraðir, en það er misskilningur.

Kvenréttindabarátta snýst um baráttu fyrir réttindum kvenna til jafns á við karla. Hún snýst ekki um baráttu fyrir meiri réttindum kvenna til lífs eða valda en karla.

Eina ástæðan fyrir því að feminismi (kvenréttindastefna, upphaf baráttu fyrir jafnrétti kynjanna) er kenndur við konur er sú að þær voru fyrri til að fá áhuga á jafnrétti kynjanna þar sem að það hallaði á þeirra réttindi til að byrja með.

Kúgun kvenna af körlum var staðreynd og er enn staðreynd víða í heiminum. Konur hafa þurft að berjast fyrir réttindum sínum til jafns á við karla og þurfa enn, víða í heiminum.

Jöfn réttindi karla og kvenna er markmið feminsima. Ef þú ert hlynntur jafnrétti kynjanna, Fiffi minn elskulegur, þá ertu feministi.

Hvað frjálshyggju í nútímanum viðvíkur er ég sammála þér og Mill. Fólki ætti að vera frjálst að gera hvað sem það vill svo fremi að það skaði engann annan.

Ég er líka á þeirri skoðun að fólki ætti að vera frjálst að hafa sínar skoðanir.

Það að "konur ættu að vera á móti fegurðarsamkeppnum" er mín skoðun, byggð á þeim grundvelli að vilji konur vera öðrum konum góð fyrirmynd þá sé meir um vert að sýna elsku og virðingu í verki (margar leiðir til) en að spóka sig um á bikiníi og láta mæla í sér "fegurðina".

Þú nefndir forræðishyggju í sambandi við þessi orð okkar.
Ég held að með því að lýsa skoðunum sínum hafi fólk áhrif á annað fólk. Ég er sammála sumu sem ég les, öðru er ég ósammála. Auðvitað vonar sá sem lýsir skoðun sinni að sem flestir séu honum sammála. Fólk væri varla að lýsa skoðunum sínum ef það vildi ekki hafa áhrif á skoðanir annarra.

Ég óska þess helst að sem flestir séu sammála mér en auðvitað má fólki finnast hvað sem það vill. (Það kemur þó ekki í veg fyrir að mér finnist fólk sem hefur skoðanir á öndverðum meiði við mínar vera tregt og annars flokks..)

Gleðilega hátíð:D
 
Hellú Vilborg! Ég bara verð að fá að tjá mig aðeins um þetta mál....

Satt best að segja finnst mér gagnrýni feminista á forsætisráðherrann fyrir að óska Unni Birnu til hamingju fyrir Miss World titlinn heldur kjánaleg. Ástæðan er einföld. Hún er Íslendingur. Hún fór í alþjólega keppni. Hún vann!!!!! Mér finnst það frábært!!! Íslendingur vann í keppni úti í heimi!!!! Þetta snýst ekkert um fegurðarsamkeppnir, með eða á móti, persónu Unnar Birnu, feminista eða eitthvað annað. Þetta snýst um þjóðarstoltið og að finna til þess þegar "við" vinnum eitthvað eða gengur vel úti í hinum stóra heimi.

Vala Flosa vann brons á Olyumpíuleikunum, Björk er heimsfræg, Ísland vann B-heimsmeistarakeppnina íhandbolta 1989, Jóhann Hjartarson varð einu sinni heimsmeistari í skák, íslenskir viðskiptamenn eru að vekja athygli, Fjölnir Þorgeirs var með Mel B. Eyþór Gunnarsson lék í svona eiginlega Hollywood sem vinur Tarantion leikstýrði!!! Get my point!!!!!!

Ég bara get ekki skilið af hverju forsætisráðherran megi ekki óska Íslendingi, sem vann eitthvað á alþjóðavettvangi, til hamingju með árangurinn!!!!!!!! Þetta snýst ekki um í hverju hann náði árangri í, hversu fáranlega koncept keppnir fólk vinnur, þetta er svo einfalt og snýst bara um eitt: ÞJÓÐARSTOLTIÐ!!!!!!!! Er fólk ekki aðeins farið að taka lífið of alvarlega þegar það fer út í einvherja svona gagnrýni???? Ég bara fæ ekki skilið hvað er svona rangt að óska henni, og hverjum sem er, til hamingju með árangur á alþjóðlegri vísu!!! Hér á ég vitanlega ekki við um ef árangurinn á alþjóðlega vísu er eitthvað slæmur, t.d. hryðjuverk eða slíkt, ég á aðallega við ef fólk vinur til verðlauna eða nær árangri eða slíku.

Ég veit ekki hvort ég sé feminsti eða ekki. ég lýt á feminstabara´tuu sem jafnréttisbaráttu, alveg eins og það baráttu blökkumanna eða annara þjóðarbrota. Simone de Beauviour væri ósammála mér í því.....eða kannski er þetta ekki jafnréttisbarátta heldur jafngildisbarátta eins og einn maður í háskólanum orðaði það. Líffræðilegur munur karla og kvenna er staðreynd, heilinn í þeim er ólíkur og þar af leiðandi hljóta þeir þá að starfa á mismundani hátt. Konur fæða börnin, það er bara þannig að náttúrunnar hendi. Gildi kvenna og gildi karla eru á suman hátt ólík. Þess vegna ætti frekar að berjast fyrir því að gildi beggja kynja verði jafnhá og jafnmetin.

Ég trúi líka á frelsið og trúið því einlæga að við getum valið hvað við tökum okkur fyrir hendur. Við búum ekki í upplýstu samfélagi en við búum þó á tímum upplýsinganna, þær eru þarna úti flestar og við ættum að geta nálgast þær og tekið ákvörðnum út frá því. Samt eru fegurðarsamkeppnir ennþá við lýði. Fegurðarsamkeppni hunda, hesta, karla og kvenna. ÞEtta er bara hluti af mannlegum þætti að keppa, meira að segja í abstrakt hlutum eins og fegurð og listum. Stelpur velja að fara í fegurðarsamkeppnir(vissulega eru til undantekinginardæmi eins og að mamman þrýstir dóttirina út í þetta o.s.frv) og meira að segja strákarnir líka. Ekki margir, en sumir horfa á þetta. Það getur vel verið að þetta séu rotnar keppnir, fara illa með stelpurnar og guð má vita hvað. En ég verð að viðurkenna að mér er eiginlega nokk sama. Þetta er bara lítill þáttur í allri lífsflórunni í kringum okkur. Frekar lítill eiginlega, skiptir held ég fæsta máli. En hvað um það, íslendingur vann heimsmeistaratitill og ég ætla sko að monta mig að því þegar ég hitti útolendina!!!!!!!!
 
sorry hvað þetta er illa skrifað hjá mér fyrir ofan, það er mið nótt og ég orðin hálfþreytt!!!! bara til útskýra aðeins betur þetta með jafngildi gagnvart jafnrétti. T.d. ef kona er forstjóri fyrirtækis. Hún verður ólétt. Það á ALLS ekki að bitna á starfi hennar að hún verði ólétt því fræðilega séð er ómögulegt að karlinn geti verið óléttur. Óhjákævmilega lendir það á henni. Þess vegna á að meta gildi hennar sem kvenmanns, og það að hún verði ólétt, jafn mikils og gildi karlmannsins. ég viet ekki hvort að þessi pæling eða rökfærlsa komist til skila....en ég vona það :-)
 
Takk fyrir kommentið kæra Jóna Rún mín:) Ég er stórkostlega hrifin af því að þú skyldir taka þér tíma til að skrifa hugleiðingar þínar um þetta mál hérna á bloggið mitt!
Leyfist mér að ansa..

Okkar gagnrýni er sprottin af því að fólk taki því svona illa að annað fólk vilji mótmæla kveðju í sínu nafni sem það skrifar ekki undir.

Mér finnst flott að óska fólki til hamingju með árangur á alþjóðlega vísu og hvetja það þannig áfram. Það má gjarnan gera meira af því. En hafa Björk, Vala, Jóhann, Eyþór og Fjölnir, blessaður drengurinn, einhverntímann fengið kveðju frá forsætisráðherra í nafni þjóðarinnar? Ef hann er á annað borð að hrósa fólki fyrir frábæran árangur á heimsvísu, af hverju er fegurðardrottningin þá sú eina sem fær svona veglegar kveðjur?

Þú spyrð hvort fólk sé ekki bara farið að taka lífinu of alvarlega þegar það sér ástæðu til að mótmæla einhverju eins og sakleysislegum heillaóskum í nafni þjóðarinnar. Ég persónulega er ekki sátt við að forsætisráðherra, í annað skiptið á mjög skömmum tíma, noti nafnið mitt til að skrifa undir eitthvað sem ég vil ekki láta bendla mig við. Ég vildi t.d. ekki að Bandaríkjaher réðist inn í Írak.

Jafngildisbarátta. Töff.

Takk enn og aftur fyrir kommentið, ég elska komment! Á ástríðufullan hátt jafnvel..<:/
 
ástæðan fyrir því að hin hafa ekki fengið opinbera kveðju frá forsætisráðherra er af því að það hefur ekki unnið heimsmeistaratitil eða sem samsvarar því. Ég veit samt ekki hvernig kveðjur Laxness og B-heimsmeistaralið handboltans fengu, hvort það var í þjóðarinnar nafni eða ekki. En ég þori að veðja ef einhver vinnur óskarinn eða eitthvað álíka mun annað hvort koma heilla óskir eða tignarlegar heimkomumóttökur.

ég er heldur ekki sátt að styðja opinberlega innrásina í írak en við búum við lýðræði sem gengur út á við kjósum okkur fulltrúa sem síðan starfa í okkar nafni. maður er ekki alltaf sáttur við störf annara og ef okkkur líkar ekki störf þeirra getum við "rekið" þá í næstu umferð. meirihluti bandaríkjamanna vilja ekki stríð í írak en enginn heyrir raddir þeirra. þar virkar lýðræðið reyndar alls ekki. lýðræðishugmydnin en ákveðin útópísk hugmynd, lýðræði getur aldrei orðið algjört...en það getur komist nálægt því. og þrátt fyrir galla þess, eins og að ríkisstjórnin gefi út yfirlýsingu um stuðning við e-ð í trássi við þjóðina, tel ég að þetta sé besta stjórnarformið. svo er hins vegar spurningin hvenær ráðamenn ganga of langt og fara úr takt við almenning....þá verður bylting!!!!
 
Hann heitir Eyþór Guðjónsson þessi leikari þarna sem lék í Tarantino myndinni. Jamm bara svo að það sé á hreinu.
 
ég held að ég segi kálfur !
 
Einhver nefndi að fegurðarsamkeppnir mættu alveg vera svo framarlega sem að þær skaði engan. Það er einmitt það sem að feministar hafa áhyggjur af! Að ungar stúlkur eru að líta á fegurðardrottningar og fyrirsætur sem fyrirmyndir sínar, svo enda þær í átröskun og sálarkreppu ef þeim finnast þær ekki geta fyllt upp í þá staðla sem samfélagið gerir kröfur um. Eins með þann punkt að við búum í lýðræði og allt það, dæmið með stríðið í Írak og svo fram eftir götunum; ég veit ekki betur en að allir þeir sem mótfallnir voru stuðningi okkar Íslendinga við stríðið hafi látið í sér heyra þannig að afhverju megum við ekki láta í okkur heyra?
Ég verð bara að viðurkenna að ég man ekki til þess að hafa heyrt forsætisráðherrakveðju í hvert skipti sem að Íslendingur stendur sig vel á heimsvísu.
Ég bið ykkur vel að lifa.
Magga
 
Ekki alveg rétt að Vala hafi ekki fengið heillaóskir frá forsætisráðherra eins og sjá má hér:

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=560912

Það var meira segja flaggað henni til heiðurs á stjórnarráðinu, ekki fékk Unnur Birna það.

Annars finnst mér maður alltaf vera heyra um heillaóskir frá ráðamönnum þessa lands þegar Íslendingum gengur vel í keppnum á erlendri grundu.
 
Skrifa ummæli

<< Heim

This page is powered by Blogger. Isn't yours?