þriðjudagur, mars 29, 2005

Absolut Tan
Ég er UPPTEKIN! Ég þarf að senda samninga hingað og þangað, búa til handrit og skrifa ljóð og texta, gera verkefni og ritgerðir í skólanum og vera sæt. Váts! Hljómar eins og ég sé að gera mjög merkilega hluti, en hvað vitið þið! Kannski er ég að gera mjög merkilega hluti. Ef þið trúið því ekki þá er mér alveg sama. (samt greinilega ekki svo upptekin fyrst ég gef mér tíma til að blogga.. en samt svolítið svona meira en venjulega).
Ég skemmti mér ÓGEÐSLEGA VEL um páskana, fyrir utan timburmennina sem komu óboðnir í heimsókn. Jónasína Fanney hottsjott bomba sá ekki bara um áfengisflæðið heldur allt gamanið líka. Páskarnir verða ógleymanleg stund eins og ég spáði!:D Takk Jónasína mín fyrir að gera þá svona sérstaka, þú ert æði!:D
Jæja, ég ætla að halda áfram að búa mér til framtíð.
Tsjá bellas.
Verð samt að segja eitt; Magga og Reynir Albert, þið eruð flottasta parið í bænum! Mjög brún og mjó, bæði tvö!

fimmtudagur, mars 24, 2005

Jesus, my father and Jonnie Fannie
Pabbi er orðinn löglegt gamalmenni. Hann varð 67 ára síðastliðinn mánudag. Til hamingju pabbi! Hann er búinn að hlakka til að komast á eftirlaun síðan um fermingu og núna loksins getur lífið byrjað. Jibbí og húrra.
Ég er aftur á móti bara 22 ára smástelpa og á langt í eftirlaunin ennþá. Kannski get ég stytt mér stundir með því að vinna eitthvað. Kannski get ég drukkið áfengi og leyft óminnishegranum að sjá um mín mál þangað til ég vakna á 67 ára afmælisdaginn, tilbúin að fara að lifa lífinu. Kannski ég reyni bara að drullast til að verða eitthvað almennilegt.. æji, það kemur í ljós hvað ég verð.
Ekkert að frétta. Ég er jafn mjó og sæt og alltaf. Ætla að djamma um páskana fyrst ég er komin útúr skápnum sem félagsvera. Jónasína Fanney hottsjott bomba ætlar að koma norður og sjá um að ekkert lát verði á áfengisflæðinu. Þetta verður yndislegur tími og lengi í manna minnum hafður eftir á. Jájájá. Það er ég viss um.
Hafið það gott um páskana og gleymið ekki frelsaranum sem um þetta leyti árs fyrir tæpum 2000 árum var að þjást á fullu svo að við gætum átt fyrirgefningu synda okkar vísa. TAKK JESÚS!

sunnudagur, mars 20, 2005

Its offisjal
Ég er ein af þessum vesalingum sem fær sér í glas sum kvöld.
Á föstudaginn fór ég í afmælis/innflutningspartý til Ásu. Ég fór edrú í partíið og edrú þaðan út (þótt ég hafi fengið mér nokkra ávexti í bollunni hennar Ásu sem var svo ómótstæðilega framreidd, í hvítri ruslafötu:D Ása sagði að þeir væru hollir!) en þegar ég kom á Karólínu sannfærði Magga mig (andsetin af Bakkusi) að bjór væri málið. Ég ákvað að fá mér einn bjór, fannst það ekki mikið mál. Næsta stopp var Amour, þá var Sunna komin í spilið (einnig andsetin af Bakkusi) og þar var tilboð á barnum, tveir fyrir einn. Og við bara rifum upp veskið og byrjuðum að sulla.
Ég hellti fullum bjór yfir Möggu og eyddi klukkutíma inná baði, að þurrka buxurnar hennar í handþurrkaranum á meðan hún var á nærbuxunum inná bás, að kvarta (ég þurfti ekki að þurrka nærbuxurnar, hjúkket). Ég hélt svo að ég myndi pissa í mig af hlátri þegar einhver dvergastelpa, mjög sæt, kom inn og vorkenndi Möggu svo mikið að hún bauðst til að kaupa handa henni tvöfaldan viskí í kaffi á barnum. Magga vildi ekkert fara með henni, en stelpan hélt nú ekki, dró hana með sér (virkilega togaði í handlegginn á henni, þangað til hún varð að fylgja henni) á barinn og dró upp visa kortið. Til allrar hamingju tókst Möggu þó að breyta pöntuninni í bjór.
Ásta Schreiber og Bjarki skáld/laganemi komu til okkar á Amour og við fórum öll á Kaffi Akureyri að dansa. Við Magga bönduðum frá okkur æstum ljósmyndurum og misspennandi aðdáendum utan af landi en á meðan var Ásta á fullu í ríku og sætu köllunum. Það kom í ljós að hún þekkir alla. Alla í heiminum.
Ég, Bjarki og Magga tókum leigara heim, en skildum Ástu eftir í Nætursölunni þar sem hún var í komst ekki í burt frá hópi af sætum strákum sem þurftu allir bráðnauðsynlega að tala við hana:)
Ég kom heim, var sofnuð á leiðinni upp, en dreif þó sem betur fer upp í rúm. Vaknaði svo hress og kát morguninn eftir, eftir skemmtilegt kvöld. Eða þá að ég vaknaði ógeðslega timbruð og fúl yfir því að hafa dottið í það.. ég man það ekki. Örugglega þetta fyrsta bara.
Ég er allavega enn á ný búin að sanna það fyrir sjálfri mér að ég er veik fyrir öllum freistingum. Öllum nema heimalærdómsfreistingunni. Hún hefur ekki náð tangarhaldi á mér enn. En ég á von á að það fari að gerast ení minöt ná..

miðvikudagur, mars 16, 2005

Súkkulaði sæla í sæluríki súkkulaði ælu
Þá er maður enn eina ferðina staddur á bókasafni Háskólans á Akureyri. Ég er í ágætis fílíng núna, enda nýbúin að gleypa í mig Snickers. Minn kæri vinur Reynir typpalingur trúir ekki á sælutilfinningu þá sem einungis næst með því að troða í sig súkkulaði þegar depurðin bankar á dyrnar. En ég trúi á hana. Ég finn fyrir henni. Fyrir 5 mínútum síðan var ég heví blúsuð yfir slæmu gengi í prófi sem ég tók í morgun, en núna er ég búin að ákveða að slappa af og sjá einkunnina áður en ég brjálast. Þetta gerir súkkulaði fyrir mann. Ojá.
Annars held ég barasta að Magga vinkona sé tilfinninganæmur ljóðasnillingur í gerfi lögfræðinema. Tékkiði á nýjasta ljóðinu hennar á www.blog.central.is/maggs ameisíng stöff!

mánudagur, mars 14, 2005

The lady with the wooden hand
Ég er orðin móðursystir í 19. skiptið!!! Jibbí og húrra! Dísa eignaðist risastóra stelpu laugardaginn 12. mars. Hún er svakalega sæt!:D Allt gekk vel og móður og dóttur heilsast ljómandi vel. Hún var 17,5 merkur og 54 cm. Mamma segir að hún sé alveg eins og Sædís, eldri dóttir Dísu systur minnar. Ekki er það nú ónýtt því Sædís er sjúklega sæt!
Mig dreymdi svo fyndinn draum í nótt. Það var þannig að ég fór heim með strák og sofnaði í rúminu hans, þótt það væri ekkert í gangi á milli okkar. Um morguninn þegar ég vaknaði var húsið allt að fyllast af ættingjum og allt að verða vitlaust því það átti að gifta systur hans þá um daginn. Ég hugsaði: Sjitt sjitt, best að drífa mig heim áður en einhver sér mig. Þá kemur inn í herbergið gömul lítil og aumkunarverð kona, amma stráksins. Hún réttir mér vinstri höndina til að heilsa og segir: "ég myndi rétta þér þá hægri en hún er úr tré, ég missti hana í slysi fyrir mörgum árum síðan". Svo lét hún mig þreifa á viðarhöndinni. Ég var hin vandræðalegasta. Ekki skánaði það þegar hún spurði mig svo hvort ég ætlaði ekki örugglega að borga í brúðargjöfinni þar sem ég væri nú orðin ein af fjölskyldunni. Úff púff. Ég sagði nei, við erum ekkert saman sko, ég gisti bara hérna. Þá fór hún að gráta.
Pæliði í því ef maður myndi lenda í þessu í alvörunni!! Úff púff fúff.

fimmtudagur, mars 10, 2005

Salami-syndrome
Ég var að vinna verkefni í nótt. Fór mjög seint að sofa en þurfti samt að mæta í skólann klukkan átta í morgun. Ég vaknaði frekar seint og ákvað að taka með mér nesti því ég hafði ekki tíma til að borða morgunmat. Brauð með spægipylsu varð fyrir valinu. Ég smurði mér samloku og hafði bara tvær sneiðar af spægipylsunni á hvorri brauðsneið, því það fer svo í taugarnar á Jónínu systur minni þegar ég fæ mér þrjár og svo er líka allt í lagi að fá sér bara tvær ef maður er að gera samloku. (Lógíkin á bak við þetta allt saman er að tvær spægipylsusneiðar eru ekki nóg til að ná yfir eina brauðsneið, en það er hægt að fiffa þetta til með samlokunni svo að allt brauðið komist í snertingu við smá pylsu). Jónína kom fram í eldhús, nývöknuð, að bursta í sér tennurnar. Hún stoppaði í dyragættinni. Ég leit upp frá iðju minni með spægipylsufitu á fingrunum, hníf í annarri og smjör í hinni, og sá að hún ætlaði að segja eitthvað í líkingu við: "kláraðirðu spægipylsuna?!!!" Ég var viðbúin að munda smjörhnífinn, æsa mig á móti og segjast hafa skammtað mér naumlega svo hún gæti líka fengið. Það væru sko heilar þrjár sneiðar af spægipylsu eftir og hún gæti sko bara étið þær og ekkert helvítis vesen! En það kom ekki til átaka. Hún gekk skrefi nær, sá þessar þrjár spægipylsusneiðar sem eftir voru og hætti við að hjóla í mig. Eftir sat ég, titrandi af æsingi og með starandi augnaráð. Ég held svei mér þá að ég þurfi að fara að passa þrýstinginn maður!

sunnudagur, mars 06, 2005

Skátarómantík
Nú ætla ég að hætta að drekka í tvo mánuði. Ég er orðin of gömul fyrir þetta. Ég veit að flestir tala um það að eiga sér ekkert líf þegar þeir eru bara heima hjá sér, horfa á sjónvarpið, læra og vaska upp og hitta aldrei neinn en mér finnst það vera að eiga sér ekkert líf þegar maður flýr heimili sitt til þess að hella sig fullan allar helgar. Eins og maður hafi ekkert betra að gera en að vera fullur. Mig langar að allir haldi að ég sé of upptekin til að vera alltaf á eilífum fylleríum. Ég vil vera upptekin við að sitja heima hjá mér, vera með fjölskyldunni, læra og semja einhver ósköp. Og í rauninni er ég upptekin við það. Það er bara einhver sjálfseyðingarhvöt sem knýr mig út á lífið allar helgar. En nú ætla ég að taka í taumana og vera edrú í tvo mánuði. Heima hjá mér. Að búa eitthvað til. Allt nema börn.
Sorglegt líka að hápunktur kvöldsins skyldi vera að Sunna henti mér í gólfið í ofsafengnu gleðikasti. Þetta gerðist svona: Ég og Ása vorum búnar að vera á trúnó heima hjá henni en ákváðum að fara út þegar klukkan var langt gengin í þrjú. Fyrsta stopp var Karólína (enda ekki langt að fara). Við gengum inn og ég sá ekki neitt, frekar en vanalega, en heyrði útundan mér að einhver kallaði: "hæææææææææ!" Og það næsta sem ég vissi var að Sunna kom hlaupandi, eins og skrattinn úr sauðarleggnum, stökk á mig og í faðmlögum duttum við í gólfið, ég aftur fyrir mig og hún ofan á. Hausinn á mér skall í gólfið og gleraugun mín skutluðust eitthvert. Þetta var eins og í bíómynd. Allir þögnuðu og héldu í sér andanum. Ég, eins og drukknandi manneskja, byrjaði strax að fálma eftir gleraugunum mínum en vissi að baráttan var vonlaus því án þeirra sé ég ekkert. Sunna kom mér til bjargar og benti mér á að þau væru á enninu á mér. Óþarfi að taka það fram að mér fannst ég vera fáránleg.
Mér fannst ég ekkert hafa meitt mig en áður en langt um leið fór ég að finna til í annarri stóru tánni og hélt að hún væri brotin. En ég get hreyft hana og svona núna, svo að líkleg hefur hún bara marist, blessunin.
Annað sem gerðist skemmtilegt var að við eignuðumst vinkonu í leigubílaröðinni sem virtist vera reiðubúin að deyja fyrir leigubíl. Þegar röðin var komin að okkur reyndi einhver stelpa að svindla sér inní okkar bíl og þessi vinkona okkar hélt nú ekki, dró hana út á hárinu og kallaði hana tík og druslu. Algjört NOT ON MY SHIFT dæmi sem gladdi mig ósegjanlega mikið. Ég er ennþá að hlæja að þessu. Ofsalega fín og pen stelpa sem breyttist bara í einhverja súperhetju, eða skrímsli, þegar einhver reyndi að hösla af henni leigubílinn. Mjög fyndið allt saman, og ef ég geri einhverntímann bíómynd þá verður þetta atriði í henni.
Seinasta súrrealíska atriði kvöldsins var þegar Villi bingó naglbítur motherfokkin hottsjott stoppaði leigubílinn í gilinu og fékk að fljóta með, eða "sjanghæaði" leigubílinn eins og hann orðaði það. Svo fór ég bara heim, lagðist upp í sófa, borðaði samloku og horfði á Kill Bill vol. 1 og svo í rúmið. Allur dagurinn í dag er búinn að fara í að sofa sem er rosalega sorglegt.
Á morgun hefst nýr kapítuli í mínu lífi. Ekkert áfengi og minni svefn allan daginn. Pottþétt áætlun. Skátarnir eru málið, þeir haga sér ekki svona!

laugardagur, mars 05, 2005

Ó what a world
Við lifum á merkilegum tímum. Hér sit ég við tölvuna mína, skrifa nokkur orð, ýti á nokkra takka og eftir augnablik geta allir í heiminum, sem hafa aðgang að tölvu, lesið það sem ég skrifaði. Ég get tekið upp símann minn, skrýtið lítið tæki, ýtt á nokkra takka og talað við vini mína hvar sem þeir eru staddir í heiminum. Ég get farið út í banka, beðið um yfirdrátt upp á 400.000 krónur, pantað mér flug til London á netinu og verið komin þangað áður en dagurinn er á enda. Þaðan get ég flogið hvert sem er í heiminum. Heimurinn er ekki lengur stór, hann er lítill. Og hver sem er getur farið hvert sem er ef hann bara langar það nógu mikið.
Þetta get ég sagt, barnlaus og einhleyp konan.
Allavega....................merkilegt er þetta nú. Merkilegt og ógnvekjandi og gaman og ekkert spes og ágætt.

fimmtudagur, mars 03, 2005

Óðurinn til gleðinnar
Þá er maður eina ferðina enn orðinn hamingjusamur. Einhvernveginn vill þetta sveiflast jafnvel þótt ekkert sérstakt sé að gerast í lífi manns. Í mínu lífi er ekkert spes í gangi, ekkert annað en hefur verið að gerast síðustu mánuði, en samt hefur gleðin gagntekið mig enn á ný. Í tilefni af þessu ætla ég að skrifa um hvað allir eru frábærir. Til dæmis eru myndir af Hrönn vinkonu minni úr útskriftarpartýi Hauks inná síðunni hans Egils; www.hi.is/~egillg Hún er ekkert smá flott og falleg á þessum myndum, eins og reyndar alltaf. Það er gaman að eiga svona sæta vinkonu!:D
Svo eru það hjónin. Þau eru alltaf jafn klikkuð og skemmtileg, ef þeirra nyti ekki við væri ég örugglega flutt til útlanda þar sem ég ynni á bar og drykki til að gleyma. Systkini mín eru hvert öðru frábærara. Foreldrar mínir eru svo miklir öðlingar að ég reyni eins og ég get að líkjast þeim í hvívetna. Stundum tekst það, en stundum ekki.. ég held að það stafi af því að ég er andsetin. Andinn heitir Karl Marx og brýst stundum fram með pirring og almenn leiðindi. Einu sinni kom sér þó vel að vera andsetin af Marx, en það var þegar ég tók próf í kenningum hans fyrr í vetur.
Kata mín og Jónasína og auðvitað allir mínir vinir og óvinir. Þetta er allt svo yndislegt fólk og fallegt. Jæja, best að fara á afvikinn stað og gráta svolítið af gleði, óþægilegt að gera það á bókasafninu.
Veriði sæl og blessuð.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?