laugardagur, september 23, 2006

Áskorun (ekki megrun)

Ég tek áskoruninni my fabulous uncle Olaf. Ég legg til freestyle útfærslu á kökunni með eftirfarandi reglum og skilmálum:

1. Kakan skal vera tveggja hæða og hringlótt.
2. Eftirfarandi hráefni verða að koma við sögu: súkkulaði, heimalagað hlaup og marsipan.
3. Þema kökunnar skal vera "skáld".
4. Allir litir þjóðfána vors verða að koma fram.
5. Engin utanaðkomandi hjálp er leyfileg við bakstur kökunnar en þó er keppendum heimilt að leita sér listrænnar ráðgjafar áður en eiginlegur bakstur fer fram.
6. Keppendur skulu velja sameiginlega fulltrúa sem sér um að skipa í dómnefnd, en hún á að samanstanda af tveimur börnum milli þriggja og sex ára og fjórum einstaklingum yfir tvítugu. Þrír fulltrúar skulu vera karlkyns og þrír kvenkyns.
7. Leynd skal hvíla yfir höfundi hvorrar köku um sig þangað til dómnefndin hefur tekið ákvörðun um sigurvegara.

miðvikudagur, september 20, 2006

Hlökk

Ég hlakka til eftirfarandi:

Mamma og pabbi koma til Reykjavíkur annað kvöld. Aldrei þessu vant tókst mér að lokka þau til að gista hjá mér. Systur mínar voru ekki nógu snöggar. Jónasína fer norður í fyrramálið svo að þeim býðst tvíbreitt rúm, leslampi, sængur og koddi í sérherbergi, þau fúlsa nú ekki við því. Smá sjéns á að mamma baki eitthvað. Að minnsta kosti fyllist frystikistan af fiskibollum og berjasaft og allar aðrar hirslur af hinum og þessum frætegundum, og fjallagrösum.

Gísli bróðir minn, Soffía mágkona og Andrea besta koma aðra helgi til Reykjavíkur. Ég ætla að reyna að lokka þau til mín líka. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að Jónasína ætlar aftur norður um þessa helgi. Kannski baka ég köku handa þeim.

Kata mín á afmæli á morgun. Ég og Jónasína erum búnar að kaupa afmælisgjöf handa henni. Feitur séns á köku hérna.

Jónína systir mín hringdi hlæjandi í mig í gær og sagðist vera að prjóna á mig, ég fengi ekki að sjá það fyrr en það væri tilbúið og ég yrði að lofa að ganga í því. Ég sagði bara já, enda ævintýramanneskja.

Hannes kemur heim einhverntímann fyrir jól. Við getum eldað eitthvað og spilað Piksjónaríið sem við Jónasína gáfum honum af mikilli forsjálni á afmælinu hans í fyrra (til að hann geymdi það hérna, sem hann hefur að sjálfsögðu gert).

Magga mín á afmæli eftir rétt rúma viku. Ég er búin að kaupa afmælisgjöf handa henni en fæ líklega enga köku þar sem hún verður fyrir norðan en ég hérna fyrir sunnan.

Jólin nálgast óðfluga. Ég fer snemma í jólafrí í ár og hver veit nema ég skelli mér til Ísafjarðar með kærastanum áður en ég fer norður í jólin.

Eftir jólin get ég hlakkað til fyrsta þorrablótsins míns. Það verður í Fnjóskadal með Dælisfjölskyldunni í fararbroddi. Matur og skemmtiatriði, getur ekki klikkað.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?