þriðjudagur, júní 29, 2004

Leyfið kúnnunum að koma til mín
Þegar ég vaknaði í morgun hafði ég andstyggilega mikið á tilfinningunni að einhver hefði tekið sig til og bólstrað á mér lærin og rassinn. Það er eitthvað svo undursamlega mjúkt að setjast að það er næstum því óþægilegt. Ef þetta er einhver hrekkur þá finnst mér hann ekki fyndinn en ég held samt að ég sé bara að fitna. Það finnst mér heldur ekki fyndið.
Ég fékk sterka löngun í trampólín í dag, hringdi og athugaði hvað þau kostuðu og gerði fjárhagsáætlun til að geta eignast eitt slíkt. Svo rann af mér eftir hádegið og ég hætti við. Ekkert vit að vera með trampólín hérna, ég er ekki einu sinni með garð til að hafa það í! Ekki get ég haft það úti á svölum.
Ég er smám saman að átta mig á því að kúnnafóbían mín er ekkert nema hugarástand og það er kominn tími til að hætta þessarri vitleysu. Héðan af ætla ég að gera mér far um að vera elskuleg og sinna hverju og einum kúnna eins og hann væri mín eigin móðir. Ég tók þessa ákvörðun eftir að hafa setið á bakvið og skrifað þetta um leið og ég óskaði öllum til helvítis:

Nú leiðist mér. Það er ekkert að gera hjá mér, vélin er biluð og lítið í afgreiðslu. Oj bara, og svo er veðrið úti geðveikt gott. Verður verra eftir því sem líður á daginn. Þegar ég verð búin í vinnunni verður kominn vetur eða e-ð. Djísös ég nenni ekki einu sinni að skrifa. Ég ætla að fara að horfa á símann og bíða eftir því að hann hringi.
....
Síminn hringir ekki og hér er allt morandi í frönskum vitleysingum sem láta eins og þeir séu heyrnarlausir þegar ég býð upp á mína úrvalsaðstoð. Svo líta þeir á mig heimskum augum meðan ég romsa uppúr mér því sem segi við alla sem koma til mín: "Góðandaginngetégaðstoðaðneieinmittekkifiktaíneinu" og brosa eins og fífl og yppta öxlum á afsakandi hátt í staðinn fyrir að segja bara eitthvað á útlensku; nó komprendei sör, eða eitthvað. En í staðinn verð ég að gizka á hvort þeir séu útlendingar og fávitar eða bara fávitar sem heyra illa. Ég náttúrulega æsist öll upp við svona virðingarleysi og læt eins og ég fatti ekki að þeir séu útlendingar og held áfram að bjóða fram aðstoð mína, tala bara hærra, þangað til þeir neyðast til að gubba uppúr sér nokkrum orðum og gera mér þannig ljóst að þeir skilji ekki tungumálið. Þá verð ég voða ljúf og blíð á manninn og segi: "Óóó....hahahha, I see! Fransmann! Farðí rassgat!" og brosi breitt og glaðlega á meðan.
Annars erum við öll kúnnar og ættum þessvegna öll að taka okkur á og tileinka okkur ákveðna mannasiði þegar við verslum eitthvað. T.d. þessar:
- Engin kumpánleg vináttuhót, ekkert óþarfa spjall eða brandarar sem lengja afgreiðsluna.
- Biðjið strax um aðstoð ef þið eruð að leita að einhverju ákveðnu, ekki skima um allt eins og fávitar þegar afgreiðslumanneskjan gæti bent ykkur á hlutinn á einni sekúndu.
- Ekki "bara skoða".
- Ekki halda að afgreiðslumanneskjan muni eftir ykkur frá því að þið komuð síðast.
- Ekki vera í heila öld að leita að veskinu ykkar.
- Bjóðið kurteislega góðan daginn þegar þið stígið inn á yfirráðasvæði afgreiðslumanneskjunnar og þakkið síðan kærlega fyrir ykkur þegar þið farið út aftur.
- Ekki muldra ofan í bringuna, talið hátt og skýrt.
- Ekki vera lengi að bera fram erindið.
- Ekki koma með dæmisögur úr lífi ykkar sem koma afgreiðslumanneskjunni ekkert við, hún nennir pottþétt ekki að hlusta á ykkur.
- Ekki vera að væflast eitthvurt þangað sem þið eigið ekkert erindi.
- Ekki vera að farast úr stressi.
Og munið meginregluna; í augum afgreiðslufólks eruð þið ekki manneskjur heldur viðurstyggilegir kúnnaræflar.


Það var líklega þetta síðasta sem gerði útslagið. Um leið og ég var búin að skrifa þetta steig Guð niður af himnum og sagði við mig: "Þetta gengur ekki Vilborg". Og ég sá að það var rétt.. Nei ég ýki nú kannski aðeins, en ég meinaða! Ég get ekki verið svona lengur. Svo héðan af mun ég elska alla; kúnna jafnt sem fólk. Bíddöö...

Öfugmæli... Skrifa ummæli

<< Heim

This page is powered by Blogger. Isn't yours?