mánudagur, janúar 23, 2006

Rómantíkin

Ég tók próf á quizfarm.com um heimssýn mína.

You scored as Romanticist. Romanticism encourages society to look backwards to find our solutions. Your rationale is that things were much better a few hundred years ago so we should thus look back to those times and replace them in our modern society. You believe in a simple life and that the complexities of the modern world have turned it upside down.

Look backwords to find our solutions! Ég held ekki að fortíðin bjóði upp á neinar aðrar lausnir en að læra af mistökunum en allur slíkur lærdómur verður aðeins í lífi einstaklinga en ekki samfélaga og af því að það eru alltaf að fæðast nýjir einstaklingar sem hafa ekki gert nein mistök þá verða alltaf sömu mistökin gerð, bara með nýrri tækni.
Röksemdafærsla mín er ekki sú að allt hafi verið betra fyrir nokkur hundruð árum. Reyndar hafði fólk meira samneyti við náttúruna þá en nú en það var vegna þess að það neyddist til þess, og ég er viss um að fólki leiddist náttúran og allt sem henni viðkom, enda hefðu allar þessar tækninýjungar sem miða að því að útiloka náttúruna úr okkar daglega umhverfi ekki litið dagsins ljós annars.
Ég er ekki viss um að nútíminn í fortíðinni hafi verið einfaldari en hann er nú. Það fer reyndar allt eftir því hvernig við skilgreinum einfalt. Mér finnst líf sem er fullt af tækni sem miðar að því að hreyfa líkamann sem minnst til að "spara tíma" til að geta eytt meiri tíma í afþreyingu (horfa á sjónvarpið) einfalt. Svo einfalt að það drepur niður lífsvilja fólks á örfáum árum.
Hver einstök manneskja er alltaf jafn fersk og vitlaus sama hvernig tímarnir breytast. Við fæðumst, lifum og gerum sömu mistökin og forfeður okkar gerðu, lærum á endanum af mistökunum en erum þá komin yfir þann aldur sem vestræni heimurinn tekur mark á. Gleymum um leið að við vorum einu sinni ung og skiljum ekkert í unga fólkinu að vera með þetta vesen alltaf hreint.

Annars er ég bara hress!

föstudagur, janúar 06, 2006

Til hamingju með framtíðina, mannkyn.

Nýtt ár. Áramót eru alltaf sérstaklega hátíðleg og dularfull að mínu mati. Ég græt alltaf heilmikið yfir fréttaannálunum. Ekki vegna innihaldi fréttana heldur af því að akkúrat þá eru langflestir landsmenn að horfa á sjónvarpið, með mér í anda. Ég finn svo sterkt fyrir því að vera partur af hópi að ég get ekki annað en grenjað úr mér augun. Óþarfa viðkvæmni segja sumir. Þess má geta að táraflóðið eykst um helming þegar skaupið byrjar. Þá hlæ ég yfirleitt manna mest til að hafa afsökun fyrir því að tárin skuli leka niður kinnarnar á mér. Annars bætti ég á táraflóðið í ár með því að fara í messu með föður mínum klukkan sex á gamlárskvöld. Yndisleg stund. Þegar kom að því að syngja "Nú árið er liðið" var ég komin með ekka og lá við yfirliði af allri þessari fegurð og samkennd með mannkyninu. Eiginlega get ég ekki lýst tilfinningum mínum almennilega, nema þá helst í kveðskapi (Ég bið lesendur mína afsökunar á því að þessa dagana þjáist ég af öfugri þágufallssýki. Hún felst í því að setja þágufallslegar endingar á sum nafnorð í lok setningar, sama hvort það á við eða ekki).

Áramót
Það er eins og allir
eigi afmæli
í dag.
Saman.

Eftir að hafa skálað í óáfengu freyðivíni (sem var reyndar ekki bara óáfengt heldur hét Æbble böbbler og var ætlað börnum) tók unggæðingurinn í mér við. Ég poppaði bjór og tjúnnaði upp í djassinum í ríkisútvarpinu, dansaði við mömmu í eldhúsinu og ákvað svo að fara í partý. Adda vinkona varð fyrir valinu og þangað skutlaði Gísli bróðir minn mér. Heima hjá Öddu voru, eins og von var til, allir helstu spámenn og nornir Eyjafjarðar samankomin. Ég var samstundis dregin inn í dularfullt eldhúspartý með kristalskúlum og tarot spilum. Þar fékk ég þær fréttir að eldri maður myndi verða elskhugi minn á árinu, ég ætti eftir að finna Guð og þroskast mikið og að skáldsögur og ljóðagerð ættu fyrir mér að liggja í framtíðinni.
Ég var í partýinu nógu lengi til að missa af miðbæjargeðveikinni, eða til átta um morguninn. Þegar ég kom heim mætti ég mömmu og pabba í dyrunum en þau voru á leiðinni með mömmu í vinnuna. Þau buðu mér góðan daginn, alltaf hress, og ég ákvað að leggja mig. Þegar ég vaknaði aftur var nýja árið komið á blússandi siglingu og lofaði góðu. Ég borðaði góðan mat og ákvað, ásamt föður mínum, að strengja það eina áramótaheit(i) að breyta ekki neinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?